I. Kafli.  -   Heiti félagsins og hlutverk

1. grein - Nafn og hlutverk

Félagið heitir Stéttarfélag Vesturlands. Starfs- og félagssvæði þess er Hvalfjarðarsveit, Borgarbyggð, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur og Dalabyggð.

Félagið er aðili að Samiðn, sambandi iðnfélaga, Starfsgreinasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra verslunarmanna og Alþýðusambandi Íslands. Einnig getur félagið sótt um að gerast aðili að öðrum landssamböndum ef það er talið eiga við vegna starfsgreina.

Heimili félagsins og varnarþing er í Borgarnesi.

2. grein - Tilgangur

Tilgangur félagsins er:

  1. Að sameina allt launafólk sem starfar á félagssvæðinu sbr. 1. tölulið 3. gr.
  2. Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.
  3. Að vinna að fræðslu- og menningarmálum.

3. grein - Inngönguskilyrði

Inngöngu í félagið geta þeir fengið sem:

  • Vinna þau störf sem falla undir kjarasamninga þeirra landssambanda sem getið er í 1. grein.
  • Eru fullra 16 ára.
  • Standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan ASÍ.

4. grein - Innganga í félagið

Umsækjendur um félagsaðild skulu óska aðildar að félaginu með inntökubeiðnum eða með skilum á gjöldum til félagsins.  Aðild að félaginu skal staðfest af skrifstofu félagsins þegar umsækjandi hefur greitt félagsgjald í 4 mánuði.

Nú hefur launamaður sem ekki hefur sótt um félagsaðild, greitt félagsgjald í samræmi við ákvörðun aðalfundar félagsins á hverjum tíma, skal félagið innan 6 mánaða eftir að félagsgjaldi var fyrst skilað senda viðkomandi tilkynningu um staðfestingu á inngöngu í félagið. Geri hann ekki athugasemdir um aðild innan 10 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar telst hann orðinn félagsmaður.

Ekki er þörf sérstakrar staðfestingar ef fjarvera úr félaginu varir eigi lengur en 24 mánuði samfellt.

Um iðgjöld þeirra sem ekki kjósa að gerast félagsmenn, gilda ákvæði kjarasamninga félagsins á hverjum tíma.

Sé vafi um rétt til aðildar skal stjórn úrskurða um málið. Unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðar trúnaðarráðs og úrskurði þess til miðstjórnar ASÍ.

5. grein - Aukafélagar

Heimilt er að taka í félagið sem aukafélaga unglinga innan 16 ára aldurs, þá sem greiða til félagsins en hafa ekki óskað eftir inngöngu sbr. 4. gr. og aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum sem félagið hefur gert og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir en eru félagar í öðru félagi.

Aukafélagar greiða fullt gjald til félagsins meðan þeir eru á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.

Samninganefnd getur þó ákveðið við afgreiðslu einstakra mála, í tengslum við kjarasamninga, að aukafélagar hafi atkvæðisrétt.

Skyldur félagsins gagnvart aukafélögum eru hinar sömu og gagnvart aðalfélögum.

6. grein - Deildir félagsins

Félagið er deildaskipt eftir starfsgreinum. Þær eru: ISD Iðnsveinadeild, DVS Deild verslunar og skrifstofufólks, DRS Deild starfsfólks hjá ríki og sveitarfélögum, MFÞ Matvæla-, flutninga- og þjónustudeild, IMS Iðnaðar-, mannvirkja- og stóriðjudeild.

Deildirnar fara með kjaramál og önnur sérmál sín í samráði við stjórn félagsins.

Deildirnar kjósa sér stjórn sem hér segir: Deildir með 100 félaga eða færri skulu hafa 3ja manna stjórn, deildir með 101-250 skulu hafa 5 manna stjórn og deildir með 251 félaga eða fleiri skulu hafa 7 manna stjórn.

Yfirstjórn og fjármál skulu vera á hendi stjórnar félagsins.

Reglugerð um starfssvið deildar skal hljóta samþykki aðalfundar deildarinnar og fá staðfestingu trúnaðarráðs félagsins og viðkomandi landssambands.

Að fengnu samþykki trúnaðarráðs er heimilt að stofna nýjar deildir innan félagsins.

7. grein - Úrsagnir

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg. Hún skal afhent á skrifstofu félagsins ásamt félagsskírteini.

Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðs-hreyfingunni.

Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi er lagt hafa niður vinnu vegna deilu.

II. Kafli. - Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir, brottrekstur

8. grein - Réttindi félaga

Réttindi félagsmanna og greiðenda til sjóða félagsins eru eftirfarandi:

Auk annarra réttinda njóta fullgildir félagar: málfrelsis, tillögu- og atkvæðisréttar á félagsfundum, svo og kjörgengi. Þeir félagsmenn sem eru gjaldfrjálsir samkvæmt ákörðunnar aðalfundar skulu njóta kosngaréttar og kjörgengis, eins og þeir njóta réttinda til sjóða félagsins.  Atkvæðisréttur um kjarasamninga fer eftir nánari ákvörðun  samninganefndar.

Réttur til styrkja úr sjóðum félagsins, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðum sjóðanna.

Réttur til að vinna eftir þeim kjörum sem samningar félagsins ákveða hverju sinni.

Réttur til aðstoðar félagsins vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.

9. grein - Skyldur félaga

Skyldur félagsmanna eru:

   Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og samningum í öllum greinum.

   Að greiða félagsgjöldin á réttum gjalddaga.

   Að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Þó getur starfandi stjórnarmaður sem verið hefur 3 ár eða lengur í stjórn félagsins samfellt skorast undan endurkjöri í jafnlangan tíma. Sama regla skal gilda um önnur trúnaðarstörf fyrir félagið nema trúnaðarmenn á vinnustöðum, þar skal gilda ákvæði í reglugerð um trúnaðarmenn.

   Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi í stéttarfélagið og tilkynna til félagsins brot á lögum og samþykktum félagsins.

10. grein - Félagsgjöld og réttindamissir

Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi og skulu innheimt sem ákveðið hlutfall af launum en þó er heimilt að ákveða lágmarks og hámarksgjald.

Félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd.

Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagsskrá. Stjórn félagsins getur veitt þeim sem sjúkir eru og fallið hafa af launaskrá eða stunda nám eftirgjöf á félagsgjaldi.

11. grein - Viðurlög

Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til félagsfundar.

Hver sá maður er rækur úr félaginu í lengri eða skemmri tíma sem að áliti félagsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, bakað því tjón eða gert því eitthvað til vansa, svo og hver sem ekki hlýðir lögum þess eftir gefna áminningu í félaginu.

Úrskurði félagsfundar um áminningu eða brottvísun félagsmanns má vísa til viðkomandi landssambands og Alþýðusambands Íslands, en úrskurður félagsfundar gildir þar til sambandið ákveður annað.

Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum félagsfundi.

III. Kafli. - Stjórn og trúnaðarráð

12. grein - Stjórn

Stjórn félagsins skipa 11 stjórnarmenn: Formaður, varaformaður, ritari, vararitari og tveir meðstjórnendur. Skulu þeir ekki kjörgengir sem formenn deilda á meðan þeir gegna þessum embættum. Kjöri þeirra skal lýst á aðalfundi. Formenn deilda félagsins eiga sæti í stjórn og varaformenn deilda í forföllum þeirra, enda séu forföll boðuð með nægum fyrirvara.  Nýkjörinn formaður  deildar tekur sæti í stjórn félagsins á næsta aðalfundi eftir að hann hefur verið kjörinn. Stefnt skal að því að aðalfundir deilda og félags séu með skömmu millibili. Reynt skal að tryggja að stjórnarmenn komi af félagssvæðum þeirra félaga sem stóðu að stofnun Stéttarfélags Vesturlands.

13. grein - Störf stjórnar

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn allra félagsmála milli félagsfunda. Stjórnin boðar til félagsfunda, sbr. 18. gr. Hún ræður starfsmenn félagsins, ákveður laun þeirra og vinnuskilyrði. Stjórnin ber sameiginlega ábyrgð á eigum og fjárhag félagsins. Skylt er hverjum stjórnarmanni að standa vörð um heiður félagsins. Verði hann var við að aðrir stjórnarmenn eða starfsmenn félagsins séu ekki að rækja skyldur sínar, skal hann óska eftir fundi stjórnar þar sem viðkomandi mál er rætt. Varði málið störf formanns, getur stjórnarmaðurinn óskað eftir því að t.d. varaformaður eða ritari stýri fundi. Hægt er einnig að vísa málinu til siðanefndar félagsins. Skylt er stjórn félagsins að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt. Láti félagsmaður af trúnaðarstörfum sem hann gegnir fyrir félagið er honum skylt að skila af sér öllum gögnum sem trúnaðarstarf hans varðar. Um skyldur stjórnamanna fer eftir siðareglum SV.

14. grein - Formaður

Formaður félagsins kveður til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Formaður gætir þess að allir stjórnarmenn geri skyldu sína. Hann hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að lögum þess og samþykktum sé fylgt í öllum greinum.

Varaformaður gegnir skyldum formanns í forföllum hans.

15. grein - Ritari

Ritari ber ábyrgð á því að gerðarbækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni eða fundarstjóra.

Heimilt er að skrá fundargerðir á tölvu. Skulu fundargerðir félags og deildafunda sendar öllum sem fundinn sátu ekki síðar en fyrir næsta fund og þeim gefinn frestur til að koma athugasemdum á framfæri í síðasta lagi á næsta fundi.

Heimilt er að taka fundi félagsins upp á hljóð- og/eða myndband.

Að loknu starfsári skal ritari sjá til þess að allar fundargerðir félagsins og deilda þess séu teknar saman í hefti í þremur eintökum. Skal eitt eintak geymt í Skjalasafni Borgarfjarðar og tvö hjá félaginu.

16. grein - Trúnaðarráð

Trúnaðarráð skal vera starfandi í félaginu. Í ráðinu eiga sæti stjórn félagsins og stjórnir deilda. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess. Að jafnaði stýrir formaður fundum trúnaðarráðs, nema fram komi tillaga um annað.

Formaður kveður trúnaðarráð til funda á tryggan hátt með a.m.k. sólarhringsfyrirvara. Skylt er formanni að boða trúnaðarráð til fundar ef þriðjungur þess óskar og tilgreinir fundarefni. Trúnaðarráðsfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Formaður getur í nafni félagsstjórnar kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar þegar félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi, og ræður einfaldur meirihluti úrslitum í slíkum málum.

Trúnaðarráð ásamt félagskjörnum trúnaðarmönnum skipa samninganefnd félagsins og ber ábyrgð á kjarasamningagerð þess. Samninganefndin skiptir verkum með nefndarmönnum eftir einstökum samningum.

17. grein - Kjörstjórn

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast um stjórnarkjör, stjórna atkvæðagreiðslum um kjarasamninga, verkföll og allsherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins, lögum ASÍ og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Kjörstjórnin skal kjörin af aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórnun atkvæðagreiðslna um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórnun allsherjaratkvæðagreiðslna um önnur atriði skv. lögum félagsins og/eða lögum ASÍ skipar miðstjórn ASÍ þriðja kjörstjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar.

IV. Kafli. - Fundir og stjórnarkjör

18. grein - Félagsfundir

Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn álítur þess þörf eða að minnst 50 fullgildir félagsmenn óska þess við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Fundir skulu boðaðir með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara með uppfestum auglýsingum, í blöðum og bæklingum sem hafa dreifingu á öllu félagssvæðinu, með dreifibréfi eða í útvarpi. Þó má í sambandi við vinnudeilur boða fundi með skemmri fyrirvara. Fundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Fundum félagsins skal stjórnað samkvæmt samþykktum fundarsköpum félagsins. Komi upp ágreiningsatriði varðandi fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði.

19. grein - Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá með minnst 7 sólarhringa fyrirvara og er hann lögmætur ef löglega er til hans boðað.

Á aðalfundi skulu tekin fyrir þessi mál:

  • Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
  • Skýrslur stjórna sjóða félagsins.
  • Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
  • Lýst kjöri stjórnar félagsins.
  • Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna og eins til vara.
  • Kosning fimm manna laganefndar.
  • Kosning útgáfunefndar, þrír aðalmenn og einn til vara.
  • Kosning í kjara- og samninganefnd DRS, tveir aðalmenn og tveir til vara.
  • Kosning í Stjórn sjúkrasjóðs, annað árið tveir og hitt einn.
  • Kosning þriggja manna í siðanefnd.
  • Kosning tveggja manna í kjörstjórn og tveggja til vara, formaður skal skipaður samkvæmt ákvæðum 17.gr..
  • Lagabreytingar, ef fyrir liggja.
  • Ákvörðun félagsgjalda.
  • Önnur mál.

20. grein - Stjórnarkjör

Skylt er að viðhafa allsherjaratkvæðagreiðslu við kjör stjórnar, annarra en formanna deilda sem sæti eiga í stjórn, og skal tilhögun hennar fara eftir reglugerð ASÍ.Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára sem hér segir: Annað árið formann, ritara og einn meðstjórnanda. Hitt árið varaformann, vararitara og einn meðstjórnanda.        Á haustdögum ár hvert skal á trúnaðarráðsfundi kjósa uppstillingarnefnd fyrir félagið. Þrír skulu eiga sæti í uppstillingarnefnd. Uppstillingarnefnd skal auglýsa eftir áhugasömum félagsmönnum til að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Nefndin skal að því loknu láta fara fram könnun meðal allra trúnaðarráðsmanna, aðal og varamanna og trúnaðarmanna á vinnustöðum um hverjir eigi að gegna stjórnarstörfum fyrir félagið næsta kjörtímabil. Könnun skal fara fram skriflega með óbundinni kosningu.Uppstillingarnefnd skal leggja tillögur sínar fyrir trúnaðarráð fyrir 20. febrúar til kynningar og afgreiðslu.

Trúnaðarráð leggur síðan fram lista við stjórnarkjör í félaginu eigi síðar en 1. mars. Þar skal gerð tillaga um alla þá sem kjósa skal. Náist ekki samkomulag innan ráðsins um uppstillingu skulu þeir sem ósáttir eru tilkynna það til uppstillingarnefndar, innan sólahrings frá því að listi trúnaðráðs er lagður fram, hyggist þeir taka sæti á eða bjóða fram annan lista.

Að lokinni tillögugerð trúnaðarráðs auglýsir kjörstjórn félagsins hverjir skipi listann, sem ætíð skal vera A-listi, og gefur félagsmönnum a.m.k. 14 sólarhringa frest til að bera fram aðra lista. Er hvert það framboð gilt sem fram kemur innan þess tíma, er fullmannað og hefur skriflegt samþykki þeirra sem eru í framboði og meðmæli a.m.k. 30 fullgildra félaga.

Stjórnarmaður sem ekki hefur lokið kjörtímabili sínu í stjórn félagsins en bíður sig fram til annars stjórnarsætis innan hennar, skal samhliða segja stjórnarsæti sínu lausu en missir ella kjörgengi. Skal trúnaðarráð félagsins eftir tilnefningu uppstillinganefndar þá bæta við A-listann, framboði til eins árs í þá stöðu sem losnað hefur. Hið sama skulu allir mótframboðslistar gera.

Komi fram fleiri en einn listi skal kjörstjórn láta kjósa um þá í allsherjaratkvæða-greiðslu í fyrsta lagi 1. apríl og í síðasta lagi 10. apríl. Komi hins vegar ekki fram fleiri listar teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir. Kosningu skal lýst á aðalfundi og tekur þá nýkjörin stjórn við félaginu.

V. Kafli. - Fjármál

21. grein - Félagsgjald

Aðalfundur skal ákveða upphæð félagsgjalda.

22. grein - Útgjöld

Af tekjum félags skal greiða öll útgjöld þess. Trúnaðarráð ákveður skiptingu rekstrarkostnaðar milli sjóða félagsins. Við meiri háttar ráðstafanir á eigum félagsins þarf samþykki trúnaðarráðs. Á fundi trúnaðarráðs í desember ár hvert skal stjórn Sjúkrasjóðs leggja fyrir tillögur að breyttum bótafjárhæðum og öðrum fjárhæðum sem taka þá gildi um komandi áramót, hljóti þær samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða fundarmanna.

23. grein - Skoðunarmenn og löggilt endurskoðun sjóða félagsins

Tveir félagslegir skoðunarmenn skulu yfirfara reikninga félagsins fyrir liðið reikningsár og gera athugasemdir sínar við þá. Skoðunarmenn eru kosnir á aðalfundi. Hlutverk þeirra er m.a. að hafa eftirlit með því að fjármunum félagsins sé varið til þeirra verkefna sem félagsfundur og/eða stjórn hafa ákveðið. Auk athugunar hinna félagskjörnu skoðunarmanna er stjórn félagsins skylt að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs. Reikningar félagsins skulu liggja frammi, til skoðunar fyrir félagsmenn, 7 dögum fyrir aðalfund.

24. grein - Sjóðir félagsins

Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins skulu vera: Félagssjóður, sjúkrasjóður, orlofssjóður, vinnudeilusjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skuli vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum, í ríkistryggðum skuldabréfum í bönkum eða í sparisjóðum, í skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign eða á annan hátt er stjórn félagsins og trúnaðarráð metur tryggan og sem samræmast reglum ASÍ hér að lútandi.

Tekjur félagsins skiptast milli sjóðanna samkvæmt ákvæðum í reglugerðum þeirra.

Um fjármál félagsins fer og skv. lögum og viðmiðunarreglum ASÍ.

VI. Kafli. - Siðareglur og siðanefnd

25. grein.

Félaginu skulu settar siðareglur sem trúnaðarráð staðfestir. Þær skulu ná til allra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið. Í siðareglum skal fjalla um meðferð trúnaðargagna, persónuupplýsinga, hagsmunatengsl og fleira.

26. grein.

Siðanefnd skal starfa innan félagsins. Hlutverk hennar er að leggja mat á hvort tiltekin atvik eða kringumstæður séu brot á siðareglum félagsins. Í siðanefnd eiga sæti þrír menn kosnir á aðalfundi félagsins til eins árs í senn.

27. grein.

Ef einstaklingur sem gegnir trúnaðarstarfi fyrir félagið er sakaður um brot á siðareglum, skal siðanefnd fjalla um málið. Telji siðanefnd að viðkomandi hafi gerst brotlegur skal hún ákveða hver viðurlög skuli vera. Þau geta verið áminning eða viðkomandi er sviftur umræddu trúnaðarstarfi. Ef um mjög alvarlegt brot er að ræða er hægt að svifta viðkomandi rétti til allra trúnaðarstarfa fyrir félagið (sjá einnig 11. grein laga félagsins).

28. grein.

Nú vill sá sem talinn er hafa brotið siðareglur ekki una niðurstöðu siðanefndar og getur hann þá vísað málinu til aðalfundar félagsins.

VII. Kafli. - Lagabreytingar og allsherjaatkvæðagreiðsla.

29. grein - Lagabreytingar

Lögum þessum má breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði. Einnig er heimilt að breyta lögum á félagsfundi, hafi lagabreytingarnar áður verið ræddar á félagsfundi og breytinganna getið í fundarboði. Jafnframt er heimilt að breyta lögum félagsins með allsherjaratkvæðagreiðslu skv. reglugerð ASÍ þar að lútandi.

Til þess að breytingin nái fram að ganga á fundi verður hún að vera samþykkt með 2/3 hlutum greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna. Meirihluta atkvæða þarf til lagabreytinga í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.

Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er miðstjórn ASÍ og hlutaðeigandi landssamband hefur staðfest þær.

30. grein - Allsherjaratkvæðagreiðsla

Allsherjaratkvæðagreiðslu skal viðhafa:

  • Við stjórnarkjör í félaginu.
  • Við kosningu fulltrúa á ársfund ASÍ.
  • Þegar stjórn félagsins eða lögmætur félagsfundur samþykkir að viðhafa allherjaratkvæðagreiðslu. Slíkar atkvæðagreiðslur er þó aðeins hægt að viðhafa um mál sem lögð eru þannig fyrir að hægt er að svara já eða nei eða kjósa milli tveggja tillagna.

VIII. Kafli. - Félagsslit o.fl.

31. grein - Félagsslit

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu.

Verði samþykkt að leggja félagið niður skal Alþýðusamband Íslands varðveita eignir þess þar til annað stéttarfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar Alþýðusambandsins.

Um úrsögn félagsins úr ASÍ eða samtökum sem aðild eiga að því fer samkvæmt lögum ASÍ.


Lög þessi samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu í Verkalýðsfélagi Borgarness, í Verkalýðsfélaginu Val og í Verkalýðsfélaginu Herði 17. og 18. maí 2006 og staðfest á stofnfundi Stéttarfélagi Vesturlands 31. maí 2006.

Lögin með breytingum á 1., 14. og 18. grein ásamt niðurfellingu á 2. tölulið bráðabirgðaákvæða svona einróma samþykkt á aðalfundi Stéttarfélags Vesturlands 30. maí 2007.

 Lögin með breytingum á 12. og 16. grein samþykkt á aðalfundi 14. maí 2014

Lögin með breytingum á 22. grein, nýjum VI. kafla og  síðan breyttum númerum á köflum og efnigsgreinum eftir það voru samþykkt samhljóða á aðalfundi 14.júní 2016

Lögin með breytingum á 8.,13.,19. og 22. grein samþ. á aðalfundi 30.apríl 2019 og á félagsfundi 11.des. 2019 var samþykkt breyting á 20. gr. eftir ábendingar frá ASÍ.

  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei